Ársíðaleiðrétt atvinnuþátttaka í desember 2022 var 79,8 prósent og hlutfall starfandi 77,2 prósent. Leitni árstíðaleiðrétts atvinnuleysis hefur verið stöðug í 3,8 prósentum síðustu sex mánuði.
Rúmlega 216 þúsund einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára voru á vinnumarkaði í desember 2022 en af þeim voru 6.600 einstaklingar atvinnulausir og í atvinnuleit.
„Áætlað er að 17.400 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) í desember 2022 sem jafngildir 7,8% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 38,1% atvinnulausir, 26,4% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 4,5% í atvinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 31,0% vinnulitlir (starfandi í hlutastarfi og vilja vinna meira),“ segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar.
Slaki á vinnumarkaði hefur dregist saman um 4,6 prósentustig á milli ára samanborið við desember 2021. Leitni árstíðaleiðrétts slaka hefur dregist lítillega saman síðustu sex mánuði eða um 1,1 prósentustig.