Vísir greindi frá nöfnum fimm keppenda í gær og fimm til viðbótar í dag. Trúnaður ríkir milli keppenda og RÚV varðandi þátttöku í keppninni og hefur jafnan mikil leynd hvílt yfir atriðunum. Twitter-notandinn Crystal Ball ESC hefur hins vegar farið mikinn undanfarnar vikur og birt upplýsingar um keppendur í undankeppnum ýmissa þátttökuþjóða Eurovision.
Vísir hefur rætt við nokkra af þeim keppendum sem eiga að stíga á stokk á morgun. Sumir hafa staðfest þátttöku sína en aðrir neitað að tjá sig. Enginn hefur neitað því að vera meðal keppenda.
Alveg hægt að skemma
Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar vill ekki staðfesta að nöfn flytjenda, sem hafa verið lekið, séu rétt. Hann segist ekki vita hvernig lekann bar að.
„Ef maður vill skemma fyrir mómentinu hjá okkur sem á að vera alltaf þegar þátturinn er spilaður á laugardagskvöldi, ef maður er þannig þá getur maður það alveg. En á hinn bóginn er hluti af manni sem gleðst yfir því hvað það er ótrúlega mikill áhugi á keppninni. Þetta mun auka áhorfið á þáttinn okkar og við erum ánægð með það,“ segir Rúnar Freyr og hlær.
„Fólk talar, það er fólk sem vinnur úti í stúdíóunum út um allan bæ. Þau eiga vini og heyra að þessi hafi verið í keppninni og svona. Og þetta er ekki eins og þetta sé eitthvað háleynilegt mál, þetta varðar ekki þjóðarhagsmuni. Þetta er bara skemmtiefni sem við erum að gera saman og reyna að gleðja þjóðina,“ segir Rúnar Freyr en ítrekar að nöfn flytjenda hafi ekki verið formlega staðfest.
Lögin óhult í bili
Lögunum sjálfum hefur ekki verið lekið, en það gerðist til að mynda í fyrra.
„Við höfum gert ráðstafanir – teljum við – til þess að sjá til þess að þau fari ekki. En svo veit maður aldrei. Þjófar eru oft klárari en eigendur hluta, eins og margir hafa lent í sjálfir, og við getum aldrei tryggt það. En við teljum okkur hafa gert ýmislegt til að passa vel upp á þetta í ár, en svo veit maður aldrei. Það eru greinilega margir að farast úr spenningi yfir því hvernig þetta fer hjá okkur.“
Söngvakeppnin hefst formlega með kynningu á lögum og flytjendum á morgun en fyrsta keppniskvöldið í beinni útsendingu verður 18. febrúar næstkomandi.