Hlýtt hefur verið um land allt í dag með mikilli rigningu um sunnan- og vestanvert land. Víða eru miklir vatnavextir, ár hafa flætt yfir bakka sína, snjór bráðnað hratt og krapaflóð fallið. Samkvæmt færslu á vef Veðurstofunnar má gera ráð fyrir áframhaldandi hættu á krapaflóðum, skriðuföllum og vatnavöxtum fram á kvöld.
Miklir vatnavextir eru í Borgarfirði en víða hefur flætt yfir vegi á neðri hluta vatnasviðs Hvítár. Sama má segja um Suðvesturland en þar hefur meðal annars flætt yfir veg í Heiðmörk og eru gönguleiðir og bílastæði á Þingvöllum umflotin.
Gert er ráð fyrir að draga eigi úr rigningu núna seinni part dags og svo kólnar í nótt. Með því ætti að draga úr hættu á krapaflóðum, skriðuföllum og flóðum vatnsfalla.
„Meðan enn þá er hlýtt eru vegfarendur og aðrir hvattir til að sýna aðgæslu undir hlíðum þar sem grjót eða skriður geta fallið og nærri vatnsfarvegum þar sem krapaflóð geta borist niður eða ár flætt yfir bakka sína. Þetta á sérstaklega við á þeim svæðum þar sem mest rignir,“ segir í færslunni.