Hin 25 ára Khadem getur ekki snúið aftur til heimalandsins vegna þessa þar sem handtökuskipun bíður hennar í Íran. Khadem býr nú í útlegð á sunnanverðum Spáni með eiginmanni sínum og eins árs gömlum syni þeirra.
Í samtali við BBC bað Khadem um að nákvæm staðsetning hennar yrði ekki gefin upp þar sem hún óttast að það gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér. Þessar áhyggjur hefur hún og fjölskylda hennar þrátt fyrir að vera í mörg þúsund kílómetra fjralægð frá Íran.
Samkvæmt írönskum lögum ber þarlendum konum skylda til að bera höfuðklút, jafnvel þegar þær fara út fyrir landsteinana. Nokkrar þeirra hafa þó ákveðið að synda gegn straumnum og styðja þannig við konur og stúlkur í heimalandinu sem hafa mótmælt í kjölfar þess að 22 ára kona að nafni Masha Jina Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Hún var sökuð um að hafa ekki borið höfuðklút sinn á viðeigandi hátt.
Ein þeirra sem studdi við mótmæli íranskra kvenna á þennan hátt var klifurkonan Elnaz Rekabi, en hún sendi frá sér tilkynningu á Instagram þar sem hún baðst afsökunar á því að hafa ekki borið höfuðklút. Tvennum sögum fer þó um það hvort afsökunarbeiðnin hafi komið frá Rakabi af fúsum og frjálsum vilja. Orðalag hennar virtist gefa til kynna að hún hafi verið þvinguð til að skrifa hana.