Bergur Elí er vissulega á eftir Finni Inga Stefánssyni í goggunarröðinni, sem hægri hornamaður hjá Valsmönnum, en hefur staðið sig vel og átti stórleik þegar Valur vann franska liðið PAUC á þriðjudaginn og kom sér í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Bergur Elí skoraði sex mörk úr sex skotum í leiknum. Eftir að leik lauk ljóstruðu sérfræðingar Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport því upp að djammskilaboð frá Agnari Smára Jónssyni, öðrum lærisveini Snorra hjá Val, hefðu lagt grunninn að komu Bergs á Hlíðarenda.
30. ára afmæli @arnardadi (Sérfræðingsins) gerðust hlutirnir, hér er sú umtalaða!!! @StorivondiBerg (EuroBelli) pic.twitter.com/bGLsuLjuqE
— Agnar Smári Jónsson (@agnarblackpool) February 23, 2023
En Snorri hafði allan tímann trú á því að Bergur Elí gæti reynst Val vel:
„Já, já. Ég hefði ekkert hringt í hann öðruvísi. En það er ekkert leyndarmál að við vorum í vandræðum þarna. Þorgeir Bjarki fór í Gróttu og það voru einhverjir sem sögðu bara nei við okkur, og vildu ekki koma í Val. En svo datt þessi upp í hendurnar á mér og hann er bara kaup ársins. Það er bara þannig,“ sagði Snorri Steinn léttur í bragði í hlaðvarpsþætti Seinni bylgjunnar í dag.
Hann var einnig spurður út í sinn gamla samherja úr landsliðinu, Björgvin Pál Gústavsson, og hvort að mögnuð frammistaða hans gegn PAUC væri mögulega hans besta á öllum ferlinum:
„Úff. Hann er búinn að vera svo lengi að svo ég hef ekki hugmynd um það,“ svaraði Snorri og bætti við: „Ég spilaði vissulega lengi með honum en þessi frammistaða var sturluð. Það er erfitt að tala um þetta öðruvísi. Hann er með svo margt annað líka en það að verja boltann. Algjör lykilmaður í okkar sóknarleik. Það er svo sem ekki að ástæðulausu að ég fór á stúfana á sínum tíma og lokkaði hann í Val.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan en viðtalið við Snorra hefst eftir um fimmtíu mínútur.