Tuttugu og sjö líkum skolaði upp í fjöru í sumarleyfisstaðnum Steccato di Cutro í Kalabríu í morgun. Fleiri lík sáust á reki í sjónum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Slökkvilið segir að skip flóttafólksins hafi strandað við strandlengjuna. Ítalskir fréttamiðlar segja að um hundrað manns hafi verið um borð. Ungbarn og nokkur börn séu á meðal þeirra látnu. Um fjörutíu manns virðist hafa komist lífs af. Flóttafólkið er sagt vera frá Íran, Pakistan og Afganistan. Slæmt var í sjóinn og skipið var sagt hafa steytt á klettum.
Fjöldi fólks reynir að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið á hverju ári og tekur oft fyrst land í Ítalíu. Sjóleiðin er sögð eins sú hættulegasta í heimi. Alþjóðaflóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (IOM) áætlar að um 20.333 manns hafi farist eða sé saknað í Miðjarðarhafinu frá árinu 2014.