Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir úr Þorskafirði en það eru að verða tvö ár frá því starfsmenn Suðurverks hófust handa við þverun fjarðarins. Núna eru stórir áfangar í höfn.
Steinsteypt brúin, 260 metra löng, var smíðuð á uppfyllingu og í nóvember var lokið við að steypa hana upp. Eftir það var byrjað að moka undan henni, þeim verkþætti lauk fyrir tveimur vikum og má núna sjá hin sterku sjávarföll Þorskafjarðar flæða óhindrað undir.

Önnur tímamót urðu svo í byrjun febrúar þegar náðist að tengja brúna við vesturbakkann og er núna unnið að því að skera veginn þar upp brekkuna að núverandi þjóðvegi. Það er þó enn rúmt ár í að vegfarendur fái að aka yfir. Það á að gerast júnímánuði 2024. Fyllingin þarf að síga og síðan er mikið verk framundan að setja grjótvörn utan á veginn.
Níu kílómetra stytting leiðarinnar hefur afgerandi þýðingu fyrir Jóhönnu Ösp Einarsdóttur og fjölskyldu hennar en hún er bóndi í Gufudal, tómstundafulltrúi Reykhólahrepps, situr í sveitarstjórn, er formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og á auk þess þrjú börn sem fara daglega um Þorskafjörð á leið í skólann á Reykhólum.

Þótt búið sé að tengja brúna við land beggja vegna segist Jóhanna þó ekki vera búin að fara yfir.
„Nei, ég er ekki búin að fara yfir ennþá. Ég var að hugsa um að fyrsta ferðin mín hérna yfir yrði á hrossi,“ segir Jóhanna og vitnar í landnámssöguna.
„Af því að við erum hérna á Þórisstöðum þar sem Gull-Þórir bjó. Hann átti hross sem hét Kinnskær og hann synti alltaf á hestinum sínum hérna yfir fjörðinn, fram og til baka.
Þannig að ég er að hugsa að það væri svona myndrænt að vera á hrossi fyrstu ferðina sína hérna yfir.“

En Jóhanna býður einnig spennt eftir því að vegurinn um Teigsskóg klárist í haust.
„Ég held að þetta verði bara gríðarleg bót fyrir alla sem hérna búa og sem búa á kjálkanum.“
Það verður þó ekki fyrr en þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar lýkur sem Jóhanna getur ekið heim til sín í Gufudal á malbiki og losnað við bæði Ódrjúgsháls og Hjallaháls.

„Ég hlakka svo til að losna við þennan króníska moldarblett sem ég er búin að vera með aftan á kálfanum í 38 ár. Af því að maður er ekki nógu lipur þegar maður stekkur úr bílnum og rekst aðeins utan í hann.“
Um leið verður okkur litið á aurugan bílinn hennar.
-Og þeir eru alltaf svona skítugir?
„Já, þeir eru alltaf svona skítugir,“ svarar hún.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: