Á morgun fer fram á Alþingi sérstök umræða um björgunargetu landhelgisgæslunnar að beiðni Andrésar Inga Jónssonar. Hann hefur áhyggjur af því að björgunargeta sé ekki í samræmi við þörf og hyggst krefja dómsmálaráðherra um svör.
„Mig langar að fá það frá ráðherranum hvort hann telji að björgunargetan sé í samræmi við þörf, ég hef áhyggjur af því að svo sé ekki," segir Andrés.

„Tilefnið eða upphafið af þessu eru þessar fáránlegu fréttir sem bárust í byrjun árs um að dómsmálaráðherra sæi fyrir sér að selja flugvél gæslunnar til að fylla upp í eitthvað gat í fjárlögum. Nokkrum vikum eftir að hann hafði sagt þinginu að gæslan væri full fjármögnuð og bara á lyngnum sjó.“
Hefur áhyggjur af því að ráðherra vanti langtímasýn
Andrés segir að skoða þurfi málið í stærra samhengi. Landhelgisgæslan hafi verið vanfjármögnuð í mjög langan tíma og ein birtingarmynd þess sé að gæslan hafi ekki getað verið það mikið á sjó til að geta verið með það viðbragð sem kröfur eru gerðar um.
„Mér sýnist að á síðustu árum þó það hafi verið gerðar ýmsar úrbætur hafi það ekki þróast í rétta átt og ekki alveg nógu langt bæði með tilliti til mönnunar og tækjabúnaðar,“ segir Andrés.
„Þetta eru þannig tæki sem gæslan rekur að það þurfa að vera tuttugu ára áætlanir um tækjakaup til að hægt sé að sjá fram í tímann það sé viðunandi viðbragð hjá gæslunni til framtíðar. Við þurfum að fá þetta allt á hreint.“
„Það vantar mannskap vegna þess að það vantar pening“
Andrés hefur áður gert athugasemdir um fjármögnun og mönnunarvanda þyrlunnar og til dæmis þá staðreynd að það sé ekki skráð ef enginn er á vakt.
„Þetta er svo rosalega mikill grunnþáttur í öryggi sjófarenda og annarra á landinu að það skiptir máli að þetta sé almennilega gert. Það að það sé ekki skráð enginn er á vakt er birtingarmynd mönnunarvanda gæslunnar.“
Mönnunarvandi er bara fallegt feluorð yfir vanfjármögnun. Það vantar mannskap vegna þess að það vantar pening.