Hugo Lloris hefur verið fyrirliði franska landsliðsins undanfarin ár en lagði landsliðsskóna á hilluna eftir HM í Katar þar sem Frakkar enduðu í 2. sæti eftir tap fyrir Argentínumönnum í úrslitaleik.
Framundan hjá franska landsliðinu eru leikir gegn Hollandi og Írlandi og Kylian Mbappé verður fyrirliði í þeim. Líklegt er að Didier Deschamps geri Mbappé svo að fyrirliða Frakklands til frambúðar.
Þetta er afmælisbarn dagsins, Griezmann, ekki sáttur með. Samkvæmt Le Figaro er Atlético Madrid-maðurinn sár og svekktur og íhugar nú framtíð sína með franska landsliðinu.
Griezmann hefur varla misst úr leik með franska landsliðinu á undanförnum árum og varð heimsmeistari með því 2018. Hann hefur alls spilað 117 landsleiki og skorað 42 mörk.
Griezmann, sem er 32 ára í dag, skoraði fyrsta mark Atlético þegar liðið lagði Valencia að velli, 3-0, í spænsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.