Skoðun

Kjarklaus og verkstola ríkisstjórn

Helga Vala Helgadóttir skrifar

Stýrivaxtahækkun dagsins kom fáum á óvart enda kjarklaus og verkstola ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við völd hér á landi. Stýrivextir eru nú 114 – 188% hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og Seðlabankinn hefur fá önnur ráð í glímunni við óðaverðbólguna en að hækka stýrivexti.

Það er sterkt samband milli gengisþróunar, vaxtastigs og verðlags því eins og Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor hefur bent á er þetta keðjuverkun; hækki verðlag örar hér en erlendis lækkar gengið. Sé vaxtastig hér hærra en erlendis hækkar gengið. En það er ekki allt því jafnframt því að ýta undir gengishækkun virkar vaxtahækkun letjandi á eftirspurn og þar með verðlagshækkanir innanlands. Fyrirtækin þurfa svo að taka afstöðu til óorðinna hluta og gera sér einhverjar hugmyndir um þróun þessara stærða, það er gengis krónunnar, stöðu vaxta og þurfa svo að taka ákvörðun um verð á vöru og þjónustu til almennings í kjölfarið.

Því fyrirtækin ætla sér ekki að bera hallann í þessu flöktandi umhverfi óðaverðbólgu og himinhárra stýrivaxta. Í stuttu máli, svo vitnað sé til prófessors Þórólfs Matthíassonar, þá eru fjárfestar ekki tilbúnir til að fjárfesta í eignum í íslenskum krónum nema gegn ávöxtun sem er nægilega miklu hærri en ávöxtun á sambærilegum eignum erlendis til að bæta þeim mögulegt tjón vegna óvæntrar verðbólguþróunar eða óvæntra árása spákaupmanna á íslensku krónuna.

Við ríkisstjórnarborðið virðast hins vegar engin ráð uppi önnur en að fjölga ferðalögum ráðherra, fjölga starfsfólki í ráðuneytunum og ræða svo helst eitthvað allt annað en það hvernig efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar hefur beðið skipbrot sem bitnar harkalega á öllum almenningi. Hér ríkir villta vestrið á húsnæðismarkaði, hér lifum við í örhagkerfi með smágjaldmiðli, og við völd er kjarklaus og verkstola ríkisstjórn sem fer ekki í nauðsynlegar aðgerðir, svo sem tekjuöflun í formi hvalrekaskatts svo dæmi séu tekin.

Er ekki kominn tími til að þau skili lyklunum að stjórnarráðinu?

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×