Helgin í heimi tónlistarinnar var ansi viðburðarík en fjöldi listamanna flutti lög sín á hinni sívinsælu tónlistarhátíð Coachella í Kaliforníu. Þá lentu margir listamenn í því að gervigreind var búin að setja raddir annarra listamanna yfir lög þeirra. Einnig kom út lag með Drake og The Weeknd, sem þeir komu þó aldrei nálægt því að framleiða.
Nýlega hófu netverjar að nota gervigreind til að láta raddir þekktra einstaklinga segja ákveðnar setningar. Til eru sprenghlægileg dæmi um það, eins og TikTok-myndbönd þar sem látið er eins og fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, Barack Obama og Donald Trump, séu að spila tölvuleiki með núverandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden.
Þá eru raddir þekktra tónlistarmanna notaðar í lög annarra tónlistarmanna og látið eins og þeir hafi búið til ábreiður af þekktum lögum. Til að mynda syngur rödd Rihönnu lagið Cuff It með Beyoncé í myndbandinu hér fyrir neðan.
IA Rihanna from ChatGPT singing Beyoncé s "Cuff It" pic.twitter.com/1TAmHEDAKv
— Rihanna Facts (@Nevernyny) April 13, 2023
Og í öðru myndbandi má hlusta á útgáfu Kanye West og Drake á laginu WAP sem Meghan Thee Stallion og Cardi B sungu upprunalega.
Y all the AI Kanye & Drake WAP is kinda iconic . pic.twitter.com/SCVKGcWWRd
— Brielle The Villain (@Goldbloodedkil2) April 15, 2023
Það metnaðarfyllsta sem hefur komið úr þessu fári er þá frumsamið lag sem birtist fyrst á TikTok um helgina þar sem raddir kanadísku poppstjarnanna Drake og The Weeknd eru notaðar. Drake hafði nokkrum dögum áður sagst vera kominn með nóg af gervigreind eftir að rödd hans var notuð til að syngja lagið Munch með Ice Spice.
AI got Drake rapping Munch pic.twitter.com/pWYB5rcjgg
— Complex Music (@ComplexMusic) April 14, 2023
Lagið var birt á aðganginum Ghostwriter977 og hafa tæplega 8,8 milljónir manna hlustað á það þar. Er það kallað Heart on My Sleeve og hefur nú verið gefið út á öllum helstu streymisveitum.
Universal Music Group, rétthafi tónlistar bæði Drake og The Weeknd, er sagt hafa beðið streymisveiturnar um að taka lagið út þar sem þarna er verið að nota raddir þeirra listamanna. Veiturnar hafa ekki brugðist við þessari beiðni enn sem komið er.