Kristín er fyrrverandi Borgarleikhússtjóri en hún tekur við starfinu af Fríðu Björk Ingvarsdóttur sem hefur gegnt starfinu í tæpan áratug. Alls sóttu tuttugu um stöðuna. Kristín er ráðin til fimm ára með möguleika á endurráðningu og hefur hún störf þann fyrsta ágúst næstkomandi. Fyrsta mál á dagskrá hjá Kristínu í skólanum er að hlusta.
„Ég er mjög þjónandi leiðtogi og mun fyrstu mánuðina einbeita mér alfarið að hlusta starfsmenn og nemendur skólans. Markmið mitt þessa fyrstu mánuði er bara einfaldlega að hlusta og komast á dýptina til að öðlast skilning og yfirsýn og ég bara brenn fyrir listum og skapandi greinum og trúi því að skapandi hugsun verði ein af lykilbreytum í viðfangsefnum framtíðarinnar. Listaháskólinn hefur alla burði til að geta verið leiðandi þar því í þessum skóla verður framtíð menningarinnar til,“ segir Kristín.
Í janúar greindi fréttastofa frá því að skólagjöldin væru að sliga listnema. Kristín segir það vera eitt af þeim málum sem þurfi að skoða. „Það er auðvitað mjög mikilvægt að þetta sé skoðað. Þetta er auðvitað mikið jafnræðismál bara varðandi aðgengi að námi og skiptir miklu máli að það sé ákveðið sanngirni í þessu. Þannig þetta er auðvitað eitthvað sem ég mun skoða með stjórn skólans og starfsfólki og fara í samtal um þetta.“
Kristín segir nýjar áherslur ávalt fylgja nýju fólki en hyggst leyfa breytingum að gerast í samráði við starfsfólk og nemendur.
„Eins og ég sagði þá er mitt markmið fyrstu mánuðina að hlusta og öðlast skilning og þegar ég er búin að því þá í rauninni byrjar maður að framkvæma,“ segir Kristín sem er full tilhlökkunar fyrir nýja starfinu.