FH er spáð falli úr deildinni í ár eftir að hafa unnið Lengjudeildina í fyrra og farið taplaust í gegnum mótið. Það er greinilegt að Fimleikafélagið ætlar ekki að sætta sig við fall og hefur því bætt tveimur sterkum miðvörðum við hóp sinn.
Arna kemur á láni frá Val en hún er 21 árs, uppalin í Víkingi Reykjavík og á að baki 54 leiki í efstu deild. Fyrsta tímabil hennar í meistaraflokki var árið 2018 þegar hún spilaði 10 leiki með sameiginlegu liði HK og Víkings. Einnig hefur hún spilað í efstu deild með Þór/KA og Val. Hún á að baki 26 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og einn A-landsleik.
Heidi Giles er 24 ára frá Kanada en hún spilaði 18 leiki með sameiginlegu liði Fjarðarbyggðar, Hattar og Leiknis Fáskrúðsfjarðar í Lengjudeildinni í fyrra. Hún var nálægt því að ganga í raðir Levante í efstu deild á Spáni í janúar síðastliðnum en það féll hins vegar upp fyrir vegna fjárhagsvandræða félagsins.
Fyrsti leikur FH er á móti Þrótti Reykjavík á Avis vellinum í Laugardal kl 19:15 í kvöld. Leikurinn er sýndur beint á Stöð 2 sport 5.