Alríkisdómstóll í Massachusetts tekur afstöðu til þess í dag hvort að Jack Teixeira, 21 árs gamall flughermaður, sæti áfram gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á hvort að hann hafi lekið fjölda leynilegra skjala til félaga sinna í samskiptaforritinu Discord, meðal annars um gang stríðsins í Úkraínu.
Saksóknarar krefjast þess að Teixeira verði ótímabundið í varðhaldi vegna þess að veruleg hætt sé á að hann reyni að flýja. Hann gæti enn búið yfir upplýsingum sem væru fjandríkjum Bandaríkjanna afar verðmæt. Í greinargerð saksóknaranna fullyrða þeir að Teixeira hafi stungið nefinu ofan í mun fleiri leyniskjöl en fram hefur komið opinberlega. Það ógnaði þjóðaröryggi Bandaríkjanna að sleppa honum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Dökk mynd er dregin upp af Teixeira í greinargerðinni, að sögn New York Times. Hann var rekinn úr framhaldsskóla vegna ógnvekjandi ummæla hans um eldsprengjur og önnur vopn og hótanir sem tengdust kynþætti árið 2018. Hann hafi leitað á netinu að upplýsingum um fjöldaskotárásir.
Þá hafi hann ítrekað rætt um ofbeldi og morð með vinum sínum í Discord-hópnum. Skotvopn og herbúnaður voru við rúmið hans heima hjá foreldrum hans.
Þegar Teixeira sótti um skotvopnaleyfi er þessi hegðun hans sögð hafa vakið eftirtekt staðarlögreglunnar. New York Times segir þetta vekja enn frekari spurningar um hvernig Teixeira var treyst fyrir aðgangi að leyniskjölum í gegnum störf sín í herstöð í Massachusetts.
Eyðilagði tölvur og bað félaga um að eyða skilaboðum
Þegar hringurinn tók að þrengjast í kringum Teixiera reyndi hann í örvæntingu og á klaufalegan hátt að fela spor sín. Þannig sagði hann félögum sínum í Discord-hópnum að eyða öllum skilaboðum. Hann bað einn þeirra um að segja ekki orð við rannsakendur.
Eins reyndi Teixeira að eyða sönnunargögnum. Saksóknararnir lögðu fram myndir af spjaldtölvu og Xbox-leikjatölvu sem flughermaðurinn braut í flýti og henti í ruslagám nærri heimili sínu skömmu áður en hann var handtekinn fyrr í þessum mánuði. Vitni sagði yfirvöldum að Teixeira hefði hent síma sínum út um glugga bíls á ferð.
Teixeira er ákærður fyrir misferli með leyniskjöl á grundvelli njósnalaga. Saksóknarar segja að hann gæti átt yfir höfði sér tuttugu og fimm ára fangelsisvist og jafnvel mun meira verði hann sakfelldur. Ungi maðurinn hefur ekki tekið afstöðu til sakarefnisins.