Elín Klara Þorkelsdóttir hefur farið hamförum í úrslitakeppni Olís-deildarinnar þar sem Haukar eru öllum að óvörum komnir í undanúrslit. Elín Klara hefur skorað 42 mörk í fjórum leikjum í úrslitakeppninni, eða 10,5 mörk að meðaltali í leik.
Þrátt fyrir að spila með Elverum í Noregi missir Orri ekki af leik hjá systur sinni og stöllum hennar í Haukum.
„Ég horfi á hvern einasta leik og það er geggjað að horfa á hana spila. Það er ótrúlegt, miðað við að hún er bara átján ára, yfirburðamaður í þessari deild að mínu mati. Ef maður horfir á þessa tölfræði er hún fáránleg. Hún er með meira en tíu mörk að meðaltali í leik,“ sagði Orri í samtali við Vísi.
„Ég er ótrúlega stoltur af henni. Mér finnst ótrúlega gaman að fylgjast með henni og liðinu og hvernig þær hafa tekist á við úrslitakeppnina. Þetta var upp og niður á tímabilinu. Þeim gekk ekkert það vel í deildinni en svo koma þær núna, taka Fram 2-0 og þetta er allt galopið gegn ÍBV. Maður vonar bara það besta því ég er ótrúlega mikill Haukamaður.“

Óhætt er að líkja framgöngu Hauka í úrslitakeppninni við öskubuskuævintýri. Liðið skipti um þjálfara seint á tímabilinu og lenti í 5. sæti Olís-deildarinnar. En í sex liða úrslitum unnu Haukar Íslandsmeistara Fram, 2-0, og staðan í einvíginu gegn deildar- og bikarmeisturum ÍBV í undanúrslitunum er jöfn, 1-1. Þrjá leiki þarf að vinna til að komast í úrslit.
„Þær eru að spila við frábært ÍBV-lið sem er með leikmenn í landsliðinu. Haukarnir hafa náð nokkuð góðum leik og það eru margar sem geta gefið liðinu mikið. Þetta hlýtur að koma á óvart,“ sagði Orri.
Ekki stóð á svari er hann var spurður hvernig leikur ÍBV og Hauka í kvöld myndi fara.
„Leikur þrjú, ég ætla bara að segja að Haukar vinni þennan leik. Ég hef trú á því og vona það,“ svaraði Orri.
Leikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19:40 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.