Sænska söngkonan Loreen vann Eurovision um helgina með laginu Tattoo. Klæðnaður og útlit Loreen í atriðinu þykir ansi líkt aðalpersónu stuttmyndarinnar Mantis eftir Sæmund Þór en myndin kom út í fyrra.
Hefur Sæmundur haft samband við Myndstef, sem annast höfundarrétt myndlistarmanna, til að athuga með rétt sinn.
„Ég er ekki sjóaður í þessu. Í fyrsta skipti sem þetta gerist hjá mér. Ég ætla að bíða og sjá hvað Myndstef gerir með þetta,“ sagði Sæmundur í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni.
Í svari við fyrirspurn sænska ríkisútvarpsins segir Lotta Furebäck, einn sviðshöfunda Loreen og ein þeirra sem fylgdu söngkonunni í gegnum keppnina, að enginn þar á bæ hafi séð téða stuttmynd.
„Hópurinn, þar á meðal Loreen sjálf, fengu innblástur frá marokkóskum uppruna hennar og laginu sjálfu. Kvikmyndir eins og Dune og mótorhjólasenan voru innblástur fyrir klæðnaðinn,“ segir Furebäck.