Körfuknattleiksdeild Hauka og Hugi Hallgrímsson hafa komist að samkomulagi um að Hugi spili með Hafnarfjarðarliðinu næstu tvö árin.
Hugi er 201 sentimetra framherji og hefur lengi verið í hópi efnilegri körfuboltamanna landsins.
Hugi er uppalinn hjá Vestra á Ísafirði og spilaði með þeim í Subway deildinni tímabilið 2021-2022. Þar var hann með um fjögur stig í leik og tæp þrjú fráköst. Þá var hann í liði Stjörnunnar tímabilið 2020-2021. Þá hefur hann verið í öllum yngri landsliðum Íslands en hann er nýlega orðinn 21 árs.
Í vetur spilaði Hugi með Angelina Collage í Texas en tók ákvörðun um að koma aftur til Íslands og spila hér á landi.
Í vetur var Hugi með 6,4 stig og 2,9 fráköst að meðaltali í leik í háskólaboltanum en var bara að fá að spila 11,2 mínútur að meðaltali í leik. Hann var að skora 22,8 stig og taka 10,5 fráköst á hverjar fjörutíu mínútur.