„Takk fyrir þessi ellefu ár,“ sagði Vucic á flokksfundi í bænum Kragujevac eins og fréttastofan AP greinir frá. „Ég er mjög stoltur að hafa leitt besta flokkinn í Serbíu í öll þessi ár.“
Vucic greindi fyrst frá afsögn sinni á flokksfundi í höfuðborginni Belgrad á föstudag, frammi fyrir tugþúsundum stuðningsmanna. Sagðist hann ætla að vera áfram liðsmaður flokksins „eins lengi og hann lifir.“
Vucic, sem er 53 ára gamall, hefur verið forseti síðan árið 2017. Hann hefur leitt Framfaraflokkinn, sem er hægrisinnaður pópúlistaflokkur, síðan árið 2008.
Skotárásir og landamæraspenna
Mikil spenna hefur verið í Serbíu að undanförnu. Bæði vegna innanríkis og utanríkismála. Í dag fara fram stór mótmæli sem skipulögð eru af stjórnarandstöðuflokkum sem hafa krafist þess að forysta ríkisstjórnarinnar segi af sér.
Mikil mótmæli hafa verið gegn ofbeldismenningu í kjölfar tveggja mannskæðra skotárása í landinu. Í einni þeirra skaut þrettán ára skólastrákur í Belgrad níu manns til bana, þar af átta önnur börn.
Daginn eftir myrti tvítugur maður átta manns með hríðskotariffli í bænum Mladenovac.
Branko Ruzic, menntamálaráðherra, mátti taka pokann sinn fyrr í þessum mánuði eftir ummæli um að kenna mætti netinu, tölvuleikjum og vestrænum gildum um skotárásirnar.
Þá hefur verið gríðarleg spenna á landamærum Serbíu og Kosovo í vetur og litlu má muna að upp úr sjóði. Kosvo tilheyrði áður Serbíu og Serbar viðurkenna ekki sjálfstæði landsins.