Purdue Pharma í eigu Sackler-fjölskyldunnar er þekktasti framleiðandi OxyContins, sterks verkjalyfs sem hefur valdið þúsundum dauðsfalla í faraldri sem hefur geisað um allan heim.
Hópur bandarískra ríkja, sveitarstjórna og frumbyggjaættbálka stefndi fyrirtækinu vegna faraldursins en málinu lauk með sátt sem felur það í sér að Sackler-fjölskyldan láti frá sér fyrirtækið og greiði á bilinu 5,5 til 6 milljarða dollara til berjast gegn ópíóíðafaraldrinum.
Fjölskyldan setti það ófrávíkjanlega skilyrði fyrir sáttinni að hún njóti friðhelgi gegn einkamálum sem kynnu ella að vera höfðuð gegn henni vegna persónulegrar ábyrgðar hennar á faraldrinum.
Gæti endað fyrir hæstarétti
Þessi sátt hefur velkst um fyrir bandarískum dómstólum undanfarin ár. Alríkisumdæmisdómstól hafnaði sáttinni á þeim forsendum að skiptarétti hefði ekki verið heimilt að veita Sackler-fjölskyldunni friðhelgi fyrir einkamálum þar sem hún hefði ekki sóst eftir gjaldþrotameðferð sjálf árið 2021.
Alríkisáfrýjunardómstóll sneri þeim úrskurði við í dag og er leiðin nú greið til þess að ljúka sátinni, að sögn AP-fréttastofunnar. Skiptaréttur þarf þó enn að leggja blessun sína yfir sáttina.
Ekki er þó loku fyrir það skotið að sáttinni verði skotið til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að öll ríkin sem höfðuðu upphaflega málið gegn Purdue hafi fallið frá efasemdum sínum um sáttina fyrr á þessu ári er gjaldþrotadeild bandaríska dómsmálaráðuneytisins andsnúin henni.
Lögmaður hennar sagði áfrýjunardómstólnum í fyrra að það stæðist ekki að fólk ekki hefur óskað eftir gjaldþrotameðferð og hefur ekki þurft að gefa eftir flestar eignir sínar fái vernd fyrir dómsmálum.
Aðrir stórir lyfjaframleiðendur ópíóíðalyfja, dreifingarfyrirtækið og apótek hafa gert sambærilegar sáttir upp á um fimmtíu milljarða dollara vegna síns hluta í faraldrinum á undanförnum árum. Þeirra á meðal eru lyfjafyrirtækin Johnson & Johnson og Teva, sem keypti íslenska lyfjafyrirtækið Actavis.