Rick Chow, eigandinn, hélt að Cyrus Carmack-Belton hefði stolið fjórum flöskum af vatni úr versluninni en, Leon Lott, fógeti Richland-sýslu, sagði táninginn hafa sett flöskurnar aftur í kæliskápinn sem hann hafði tekið þær úr, áður en hann hljóp undan Chow og syni hans á sunnudaginn.
Byssa fannst nærri líki Carmack-Belton og feðgarnir tóku eftir því að hann væri vopnaður þegar hann féll á hlaupunum, áður en hann var skotinn. Lott segir þó ekkert benda til þess að táningurinn hafi nokkurn tímann beint byssu að feðgunum.
Carmack-Belton var svartur og Chow er af asískum uppruna.
Krufning sýndi fram á að Carmack-Belton hafði verið skotinn í bakið og eftir að lögregluþjónar ræddu við vitni og horfðu á upptökur úr eftirlitsmyndavélum, var sú ákvörðun tekin að ákæra Chow fyrir morð.
„Þú skýtur ekki einhvern í bakið sem er ekki að ógna þér,“ hefur AP fréttaveitan eftir Lott. Lög Suður-Karólínu um sjálfsvörn segja meðal annars að sá sem skýtur annan mann í sjálfsvörn þurfi að telja sig í bráðri hættu og sjá enga aðra undankomuleið.
„Þetta eru sömu staðlar og lögregluþjónar fara eftir,“ sagði Lott.
Sheriff Lott announced yesterday that Rick Chow, 58, was arrested and charged with the murder of 14-year-old Cyrus Carmack-Belton. pic.twitter.com/OFaovVcHjS
— Richland County Sheriff's Dept. (@RCSD) May 30, 2023
Samkvæmt lögreglu bendir ekkert til þess að til nokkurskonar átaka hafi komið en áður en Carmack-Belton hljóp af stað rifust hann og Chow. Táningurinn var ekki með nein sár, fyrir utan skrámur eftir að hann féll og skotsár á bakinu. Kúlan hæfði táninginn í bakið og fór í gegnum hjarta hans.
Lögmaður fjölskyldu Carmack-Belton, sendi frá sér yfirlýsingu í dag, samkvæmt héraðsmiðlinum The State, þar sem hann sagði dauða táningsins ekki hafa verið slys. Þeldökkir Bandaríkjamenn hafi upplifað það í margar kynslóðir að vera hafðir fyrir ranga sök og „skotnir til bana út á götu eins og hundar“.
Áður hafði lögmaðurinn, sem einnig er ríkisþingmaður Suður-Karólínu, sett sambærilega yfirlýsingu á Facebook.