Það er alltaf gaman að koma við á Sauðfjársetrinu á Ströndum í Sævangi en það er glæsilegt setur, sem fagnaði 20 ára afmæli á síðasta ári.
En af hverju er verið að gera sauðkindinni svona hátt undir höfði á safninu ?
„Okkur finnst hún bara eiga það skilið að henni sé gert hátt undir höfði. Á þessu svæði er mikill sauðfjárbúskapur, mikið af bændum og okkur fannst bara skemmtilegt og tilefni til að lyfta þeim aðeins upp og setja upp þessa sýningu um sauðfjárbúskapinn,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir hjá Sauðfjársetrinu á Ströndum.

Dagur sauðkindarinnar er alltaf haldinn hátíðlegur á Suðurlandi á haustin þar sem verið er að dæma féð.
„Það að vera fjárbóndi, það er bara lífið, það er það besta. En þú verður sjálfsagt alltaf að hafa eitthvað annað til þess að lifa af en það að vera fjárbóndi er það er bara best í heimi,“ segir Sigríður Heiðmundsdóttir, sauðfjárbóndi á Kaldbak á Rangárvöllum.
En eru kindurnar mismunandi karakterar eða?
„Já, já, sumt er alveg snarvitlaust og maður ræður ekkert við það. Ég er að reyna að fara að minnka aðeins féð því eftir því sem maður eldist þá verð ég ekki eins kraftmikil, þess vegna verð ég að hafa féð minna,“ segir Sigríður.
Það er fátt skemmtilegra en að fara í réttir á haustin þegar íslenska sauðkindin er annars vegar og góður söngur á eftir hjá fjallmönnum og gestum þeirra eins og er svo áberandi í Tungnaréttum í Bláskógabyggð, þar er alltaf sungið og sungið.

