Björk hlýtur nafnbótina fyrir listrænt framlag sitt en þetta er í annað sinn í sögu skólans sem nafnbótin er veitt.
Í tilkynningu frá skólanum segir að nafnbótina heiðursdoktor megi veita þeim sem skólinn vil heiðra fyrir einstakt framlag til lista og menningar. Með valinu skapist tækifæri fyrir skólann til að sýna viðkomandi virðingu fyrir farsælt starf og mikilsvert framlag til fræðasviðs lista.
Við tilefnið fékk Björk pendúl hannaðan af Tinnu Gunnarsdóttur, vöruhönnuði og fyrrverandi prófessor, og heiðursskjal hannað af Guðmundi Oddi, fyrrverandi prófessor í hönnun- og arkitektúrdeild við LHÍ.
Náttúruafl sem skapar heildstæða heima
Fríða Björk Ingvarsdóttir, fráfarandi rektor Listaháskólans, flutti ræðu við tilefnið og fór yfir feril Bjarkar. Þar sagði hún meðal annars að Björk væri svo sannarlega ekki einhöm „heldur miklu frekar náttúrafl“.

„Þar fyrir utan er hún enginn venjulegur tónlistarmaður og um hana virðast gilda önnur lögmál en flesta. Sem sólólistamaður hefur hún stöðugt haldið áfram að endurnýja tengingu sína við tónsmíðarnar og eigin ímynd. Í hvert skipti sem hún sendir nýtt sköpunarverk frá sér, færir hún okkur óvæntan og nýjan heildstæðan heim,” sagði meðal annars í ræðunni.
Á útskriftarathöfninni voru flutt tvö verk eftir Björk. Annars vegar „Atopos“ í flutningi Murmura og hins vegar „tabula rasa“ í flutningi viibra.
Alls voru útskrifaðir 162 nemendur frá fimm deildum Listaháskólans í dag.