Starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja urðu fyrst varir við hnúfubakinn á föstudagskvöld. Hvalurinn var með einhvers konar veiðarfæri utan um hausinn og annað bægslið. Fylgdust áhafnar hvalaskoðunarbáta með hvalnum alla aðfararnótt laugardags, að sögn Ingibjargar Friðriksdóttur úr aðgerðastjórn Björgunarsveitarinnar Garðars í Húsavík.
Svo mikið var af hval í flóanum að erfitt reyndist að vakta dýrið. Björgunarsveitarfólk ásamt Chörlu Basran, kanadískum sjávarlíffræðingi og doktor við Háskóla Íslands, héldu svo út klukkan átta í gærmorgun.
„Markmið var að reyna að ná dróna- og ljósmyndum af honum til þess að meta þetta í raun og veru. Við ætluðum ekkert að reyna neitt annað,“ segir Ingibjörg við Vísi.

Virtist laus við bandið en með ör
Hópurinn var í um átta tíma að fylgja hvalnum eftir úti á flóanum. Hann var yfirleitt í fylgd annarra hvala og hvarf þeim stundum sjónum. Starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja aðstoðuðu við vöktunina og sömuleiðis nemendur úr sumarnámskeiði Háskóla Íslands í líffræði í Húsavík.
Þegar nægilegt myndefni safnaðist hélt björgunarliðið aftur í land. Basran taldi þá að bandið væri farið af dýrinu. Hún sendi myndefnið til kollega sinna í Bandaríkjunum sem staðfestu að það sem sæist á hvalnum væri líklega ör eftir veiðarfærin.
„En það var á honum á fyrstu myndunum okkar fyrir hádegi þannig að það hefur farið af honum yfir daginn,“ segir Ingibjörg sem telur að veiðarfærin hafi líklega komið frá línu- eða smábáti.
