Þetta er í annað sinn á fimm vikum sem þingkosningar fara fram í Grikklandi og benda bráðabirgðaniðurstöðurnar til þess að Lýðræðisflokkurinn hafi tryggt sér rúman þingmeirihluta og endurnýjað stjórnarumboð sitt til næstu fjögurra ára.
Kosningarnar í dag fara fram um viku eftir að yfirfullur fiskibátur sökk við vesturströnd Grikklands með þeim afleiðingum að hundruð flóttamanna ýmist týndust eða fórust í Miðjarðarhafinu. Atvikið hefur vakið upp spurningar um stranga flóttamannastefnu landsins og aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum.
Harmleikurinn, sem telst vera einn sá versti í Miðjarðarhafinu í fleiri ár, virðist ekki hafa haft mikil áhrif á kosningarnar þar sem innlend efnahagsmál voru hvað efst í huga kjósenda.
Hljóta meirihluta með hjálp lagabreytingar
AP fréttaveitan greinir frá því að Lýðræðisflokki Mitsotakis sé nú spáð 157 eða 158 af alls 300 þingsætum á gríska þinginu, þökk sé breytingu á kosningalögum sem veitir stærsta flokknum sérstök aukasæti.
Þetta eru fyrstu kosningarnar frá því að lagabreytingin tók gildi en í þingkosningunum í maí vantaði sama flokk fimm sæti til að tryggja sér meirihluta með 41% fylgi.
Átta flokkum er spáð þingsætum og hefur sá fjöldi áhrif á það hversu mörg sæti stærsti flokkurinn fær.
Í kosningabaráttu sinni lagði Mitsotakis, sitjandi forsætisráðherra einkum áherslu á að tryggja efnahagsvöxt og pólitískan stöðugleika í ríki sem er enn að ná vopnum sínum eftir nærri áratugalanga fjármálakreppu.