Jóhannes Antonsson, staðgengill hafnarstjóra á Akureyri, segir í samtali við Vísi að Wilson Skaw sé enn ekki að fullu sjófært. Skipið verði því dregið úr landi og til þess þurfi rétta tegund af dráttarbát.
Skipið strandaði við Ennishöfða í Húnaflóa þann 18. apríl síðastliðinn þar sem það var á leið frá Hvammstanga til Hólmavíkur. Það er um 4.000 brúttótonn og 113 metra langt. Um borð voru um tvö þúsund tonn af salti og 195 tonn af olíu.
„Það hefur staðið yfir vinna undanfarnar vikur og mánuði við að laga það sem laga þarf áður en það fær að fara og tryggja að það sé alveg örugglega sjófært,“ segir Jóhannes sem kveðst ekki vita hvert flutningaskipið heldur.
Skipið siglir undir fána Barbados og var komið á flot af Landhelgisgæslunni þremur dögum eftir að það strandaði, þann 21. apríl. Varðskipið Freyja dró skipið síðan úr Steingrímsfirði og til Akureyrar þar sem það hefur verið síðan.
„Það hefur staðið yfir vinna við að tryggja að skipið fái tilskilin leyfi til þess að fara yfir hafið, það sé pottþétt þétt og að engin olía leki frá því,“ segir Jóhannes sem segir veðurfar ekki síst hafa spilað þátt í þeim tíma sem tekið hefur að koma skipinu úr landi.
„Bæði hefur verið beðið eftir hagstæðu veðri en svo þarf líka að finna dráttarbát til að gera þetta. Þetta er líklega langt ferðalag og það tekur tíma að undirbúa það, fá leyfi og huga að ýmsu.“