Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði að eigendum Hraunbóls/Sléttabóls 2 hefði ekki tekist að sýna fram á að eigandi Orustustaða ætti ekki umferðarrétt um veginn og hafnaði kröfu eigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2 um lögbann. Jafnframt voru eigendur Hraunbóls/Sléttabóls 2, þeir Benedikt Bjarnason og Sigurður Tryggvi Thoroddsen, dæmdir til að greiða Hreiðari allan málskostnað, fimmhundruð þúsund krónur hvor, eða samtals eina milljón króna.

Áður hafði Sýslumaður Suðurlands synjað kröfu eigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2 um að leggja lögbann við því að Hreiðar notaði og endurbætti veginn. Þeir höfðuðu því mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands þar sem þess var krafist að synjun sýslumanns yrði felld úr gildi og jafnframt yrði lagt fyrir sýslumann að leggja á lögbann. Þeirri kröfu hafnaði héraðsdómur en Sigurður G. Gíslason dómstjóri kvað upp úrskurðinn í dag.
Í úrskurðinum er rakið að væringar og klögumál hafi verið vegna notkunar Hreiðars á veginum. Þannig hafi allt frá árinu 2019, hið skemmsta, verið óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þess að veginum hafi verið lokað eða hann gerður illfær. Þessi afskipti lögreglu og beiðnir um afskipti lögreglu hafi hvorki leitt til rannsóknar né saksóknar.

Héraðsdómur segir sennilegast að vegurinn teljist einkavegur en að hann sé í eigu fleiri en eins aðila. Áhöld séu hins vegar um hvort hver eigandi eigi aðeins þann hluta vegarins sem um land hans liggur eða hvort allur vegurinn sé sameign þeirra jarða sem hann liggur um frá þjóðvegi 1 og að Orustustöðum, það er Hraunbóls, Sléttabóls, Orustustaða sem og Foss 1 og Foss 2.

Að mati dómsins hafi eigendum Hraunbóls/Sléttabóls 2 ekki lánast sönnun þess að hver eigandi eigi aðeins þann hluta sem um land hans liggur. Þetta skipti þó ekki öllu máli um úrlausn málsins enda geti umferðarréttur verið fyrir hendi þó ekki fylgi beint eignarhald. Aðeins þurfi að skera úr um hvort eigandi Orustustaða eigi umferðarrétt um veginn eða hvort eigendur Hraunbóls/Sléttabóls 2 geti bannað honum not vegarins og umferð um hann.

Dómurinn vísar til sýslu- og sóknarlýsinga Skaftafellssýslu og skýrslu Fornleifafræðistofunnar þegar hann segir að ekki verði betur séð en að umræddur vegur hafi verið til um langan aldur eða allar götur frá árinu 1900. Ekki sé kunnugt um að ábúendur á Orustustöðum hafi notast við aðra leið en téðan veg til að komast að þjóðvegi 1. Þannig sé ljóst að hinn umdeildi vegur hafi verið eina vegtenging Orustustaða allt frá árinu 1900 og þar til Orustustaðir fóru í eyði árið 1950.

Ekki sé annað vitað en að sú nýting Orustustaðabænda á veginum um fimmtíu ára skeið hafi verið átölulaus og sjálfsögð. Verði því að byggja á því að Orustustöðum hafi að minnsta kosti fylgt umferðarréttur um téðan veg meðan þar var búið. Fráleitt sé að ætla að umferðarrétturinn hafi aðeins náð að sameiginlegu landi Hraunbóls og Sléttabóls, en ekki lengra, enda hefði þá vegurinn verið tilgangslaus með öllu fyrir ábúendur Orustustaða.
Dómurinn segir ennfremur að ekki liggi fyrir annað en að umferðarrétturinn hafi haldist, hvort heldur sem er vegna hefðar eða eignarréttar, þó Orustustaðir hafi farið í eyði, enda hafi eignarhald á jörðinni staðið samfellt til þessa dags.

Eigendum Hraunbóls/Sléttabóls 2 hafi ekki tekist að sýna fram á að Orustustöðum hafi ekki fylgt umferðarréttur um téðan veg, eða að sá réttur hafi fallið niður eftir að Orustustaðir fóru í eyði. Að mati dómsins breyti þar engu að umferðarréttinum hafi ekki verið þinglýst sérstaklega. Ekki hafi heldur verið þinglýst öðrum umferðarrétti um veginn þó óumdeildur sé.
Í úrskurði héraðsdóms kemur einnig fram að fyrir liggi að vegurinn hafi verið á aðalskipulagi Skaftárhrepps allt þar til því var breytt undir árslok 2014. Jafnframt segi í skipulagsbreytingunni að ekki sé gert ráð fyrir að hinn umdeildi vegur verði lagður af.
Í þessari frétt Stöðvar 2 eru sýndir þeir möguleikar sem skoðaðir hafa verið til að tengja Orustustaði við þjóðvegakerfið:
Hér má sjá myndband af fyrirhuguðu hóteli á Orustustöðum: