Þetta kemur fram í úttekt Evrópuráðsins á fangelsismálum álfunnar. Samkvæmt skýrslunni er fangelsistíðnin afar lág á Íslandi en hlutfall kvenna og útlendinga er mjög hátt miðað við önnur Evrópulönd.
Af 105 dæmdum föngum á einni viðmiðunardagsetningu sátu 28 inni fyrir fíkniefnabrot, 20 fyrir umferðarlagabrot, 14 fyrir þjófnað, 11 fyrir morð eða morðtilraun, 9 fyrir líkamsárás, 9 fyrir nauðgun, 7 fyrir önnur kynferðisbrot, 1 fyrir rán og 6 fyrir önnur brot. Enginn sat inni fyrir hryðjuverk eða efnahagsbrot. Þá sátu 28 inni sem höfðu ekki hlotið dóm.
Hlutfall fíknifanga á Íslandi hefur lengi verið mun hærra en í flestum öðrum Evrópuríkjum. Þetta hefur verið skýrt með harðri fíkniefnalöggjöf á Íslandi og að refsiramminn sé betur nýttur í fíkniefnamálum en til dæmis auðgunar eða ofbeldismálum.
Þrátt fyrir að hlutfall fíknifanga sé nú óvenju lágt er Ísland engu að síður á meðal þeirra landa þar sem flestir fangar sitja inni vegna fíkniefnabrota.
Konur og eldri fangar fjölmennir
Fangelsistíðnin árið 2022 var 38,5 fangar á hverja 100 þúsund íbúa. Þetta er með því allra lægsta í Evrópu. Til samanburðar er tíðnin 67,7 í Danmörku, 98,4 í Bretlandi og 351,5 í Tyrklandi. Tíðnin á Íslandi er sú lægsta síðan árið 2016.

Langflestir fangar eru karlar, 122 af 133, en þó að aðeins sætu 11 konur inni er það eitt hæsta hlutfall í Evrópu. Engin móðir var með barn í fangelsinu.
31 fanganna voru útlendingar, sem er mjög hátt hlutfall. Af þeim voru 27 karlar og 4 konur.
Flestir fangarnir voru að afplána 1 til 3 ára dóma, eða 36 af 105 dæmdum föngum. 10 voru að afplána langa dóma, 10 ára eða lengri.
Á Íslandi er nokkuð hátt hlutfall aldraðra fanga. 27 voru eldri en 50 ára og 3 eldri en 65 ára.
Enginn fangaflótti
Í skýrslunni kemur fram að á Íslandi séu næg rými og að mönnunin sé betri en víðast hvar annars staðar. 181 rými eru til staðar og 140 starfsmenn, þar af 98 fangaverðir.
Enginn flúði á síðasta ári úr íslensku fangelsi. Einn fangi lést, úr sjálfsvígi, en hann var í gæsluvarðhaldi.