Í upphafsleiknum í rauðabítið var brotið blað í fótboltasögunni þegar dómari kynnti VAR-dóm fyrir viðstöddum. Þetta er nýjung sem var tekin upp á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af upphafsleiknum milli Nýja-Sjálands og Noregs dæmdi Yoshimi Yamashita vítaspyrnu á Caroline Graham Hansen fyrir að handleika boltann innan teigs. Yamashita dæmdi vítið eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi.
Hún tilkynnti svo viðstöddum ákveðið og munnlega að eftir að atvikið hefði verið skoðað hefði hún ákveðið að dæma víti.
Setningarleikur HM fór fram nú undir morgun. Gestgjafarnir frá Nýja-Sjálandi gerðu sér þá lítið fyrir og unnu Norðmenn 1-0! Þetta er fyrsti sigur Nýja-Sjálands nokkurn tíman á HM
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) July 20, 2023
Hér eru öll helstu atvik leiksins pic.twitter.com/8pRHvL2pkQ
Alex Scott, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins og sérfræðingur BBC um HM, fannst þetta tilstand allt heldur broslegt. „Ég gat ekki annað en hlegið,“ sagði Scott.
„Þetta var eins og Hungurleikarnir.“
Skiptar skoðanir voru á tilkynningu dómarans. Framherjinn Ian Wright var á vellinum og sagðist á Twitter ánægður með hvernig dómarinn hefði komið ákvörðun sinni á framfæri.
Ria Percival skaut í slá úr vítinu. Það kom þó ekki að sök því Ný-Sjálendingar unnu leikinn, 1-0, með marki Hönnuh Wilkinson.
Þetta var fyrsti sigur Nýja-Sjálands á heimsmeistaramóti í sögunni. Liðið hafði spilað fimmtán leiki á fimm heimsmeistaramótum en hafði aldrei fagnað sigri. Ný-Sjálendingar höfðu gert þrjú jafntefli en tapað tólf leikjum.
Næsti leikur Nýja-Sjálands er gegn Filippseyjum 25. júlí.