Fylkir komst í 0-2 í leiknum en FH jafnaði leikinn í síðari hálfleik og voru talsvert líklegri en Fylkir til að skora sigurmark. Gestirnir sneru leiknum þó sér í vil í uppbótatíma og tókst að skora tvö mörk. Fyrsti sigur Fylkis síðan 28. maí.
„Þetta var dálítið skemmtilegt. Skemmtilegur leikur heilt yfir fannst mér. Það lá svolítið á okkur hérna í lokin og við vörðumst vel og fengu fullt af hornspyrnum FH-ingarnir og Óli (markvörður Fylkis) varði einu sinni frábærlega. Við refsuðum þeim eins og lið hafa refsað okkur á lokamínútunum í sumar. Við áttum þetta svo sannarlega skilið og höfðum mikið fyrir þessu,“ sagði Rúnar Páll.
Rúnari Páli fannst þeir leikmenn sem komu inn á fyrir liðið standa sig frábærlega líkt og þeir leikmenn sem fyrir voru inn á vellinum.
„Nikulás fer út af meiddur í hálfleik og hann hafði verið okkar besti maður í fyrri hálfleik. Hrikalega duglegur á miðjunni og góður í pressunni. Það var vont að missa hann út. Óli kemur inn á miðjuna sem er ekki beint hans staða en leysti það ágætlega og gerði bara vel. Ómar kemur inn í lokin og við vissum það að hann hefur gífurlegan hraða og kraft og hann gerði bara vel í þessum tveimur lokamörkum. Bara frábærlega gert hjá honum og liðinu öllu.“
Fylkir fer nú í tveggja vikna pásu fram yfir Verslunarmannahelgi.
„Nú erum við að fara í tveggja vikna pásu og næsti leikur 8. ágúst gegn Fram og það var hrikalega sætt að fá þennan sigur fyrir smá frí sem við erum að fara í núna. Bara kærkomið að lyfta okkur aðeins upp stigatöluna,“ sagði Rúnar Páll og bætti við.
„Þetta er svo gaman. Gaman alltaf að vinna hérna í lokin, ég þekki það ágætlega.“