Um er að ræða mannskæðustu árás í sögu Bandaríkjanna sem beindist gegn gyðingum en hún átti sér stað í bænahúsi sem heitir Tree of Life.
Bowers hafði ítrekað lýst yfir hatri sínu á gyðingum og valdi hann bænahúsið í einu stærsta og elsta samfélagi gyðinga í Bandaríkjunum til að valda sem mestu mannfalli og óreiðu. Kviðdómendur sögðu einnig á sínum tíma að hann hefði ekki sýnt neina iðrun vegna ódæðis síns.
Sami kviðdómur og dæmdi Bowers, sem er fimmtíu ára gamall, sekan hefur nú dæmt hann til dauða en allir tólf kviðdómendur voru sammála um þann dóm. Dómari mun svo formlega kveða dóminn upp í dag.
AP fréttaveitan segir Bowers hafa sýnt lítil viðbrögð þegar kviðdómendur greindu frá niðurstöðu þeirra í gær.

Bowers er fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vera dæmdur til dauða af alríkisdómstól frá því Joe Biden settist að í Hvíta húsinu. Hann hét því í kosningabaráttu sinni að binda enda á dauðarefsingar alríksisins.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur lagt bann við dauðarefsingum alríkisins og hefur bannað saksóknurum að fara fram á dauðarefsingu í hundruðum mála þar sem þær gætu átt við, samkvæmt AP.
Saksóknarar í þessu máli segja dauðarefsingu eiga við og hafa sérstaklega vísað til aldurs fórnarlamba Bowers og hve viðkvæm þau voru, auk þess að hatur hans á gyðingum hafi leitt til ódæðisins. Fengu þeir undaþágu á því að krefjast dauðarefsingar. Fjölskyldur næstum því allra fórnarlamba hans sögðu hann eiga að deyja fyrir glæp sinn.
Reyndu ekki að þræta fyrir sekt
Lögmenn Bowers reyndu ekki að þræta fyrir sekt hans, þó hann hafi upprunalega lýst yfir sakleysi sínu, og lögðu þess í stað áherslu á að reyna að koma í veg fyrir að hann yrði dæmdur til dauða. Vísuðu þeir meðal annars til áfalla og vanrækslu sem hann varð fyrir í æsku og sögðu hann eiga við geðræn vandamál að stríða.
Þeir sögðu Bowers hafa myrt fólk í þeirri trú að gyðingar stæðu að baki áætlun um að útrýma hvítu fólki og að hann hefði öfgavæst á Internetinu.
Eins og áður hefur komið fram særði Bowers fimm lögregluþjóna en hann varð sjálfur fyrir þremur skotum er hann skiptist á skotum við lögregluna. Þegar hann var handtekinn sagði hann lögregluþjónum að „allir þessir gyðingar“ þyrftu að deyja.
Bænahúsið hefur verið lokað frá því árásin átti sér stað.