Nadía hefur spilað með liði Víkings frá því að samstarfinu við HK var slitið haustið 2019, en liðið hefur spilað í Lengjudeildinni og er þar á toppnum sem stendur. Sumarið hefur gengið eins og í sögu því Víkingar hafa svo slegið út Selfoss og FH, tvö lið úr Bestu deildinni, og þannig komið sér í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. En hver er galdurinn?
„Við erum búnar að spila lengi saman og höfum fengið góða leikmenn til að bæta inn í hópinn. Selma [Dögg Björgvinsdóttir] og Erna [Guðrún Magnúsdóttir] eru búnar að vera hérna í stuttan tíma en samt er eins og þær hafi alltaf verið hérna. Fleiri leikmenn; Linda [Líf Boama], Kolla [Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir]… Við erum geggjaður hópur og getum gert kraftaverk með þennan hóp,“ segir Nadía.
Svo er vert að nefna ungu leikmennina sem spilað hafa lykilhlutverk í sumar. EM-farinn Sigdís Eva Bárðardóttir skoraði tvennu bæði í sigrinum gegn FH og gegn Selfossi, en hún er fædd 2006 eins og markvörðurinn Sigurborg K. Sveinbjörnsdóttir.
Í sigrinum gegn FH lauk Víkingur leik með fjóra leikmenn fædda 2006 eða 2007 innan vallar.
„Við köllum þetta hvolpasveitina. Þær eru hrikalega góðar og öflugar, og það er ekkert eðlilega leiðinlegt að vera að dekka þær á æfingu. Þær hlaupa út um allt. Maður er bara: „Jæja, ókei, hlaupið bara. Við nennum ekki að elta ykkur.“ Þær eru bara geggjaðar. En við viljum ekki binda of miklar vonir eða setja of mikla pressu á þær. Við sem hópur getum allar staðið saman og gert vel sem hópur,“ segir Nadía.
Kæru Víkingar. Upphitun fyrir úrslitaleik Mjólkurbikarsins byrjar kl. 16:00 í Safamýri.
— Víkingur (@vikingurfc) August 10, 2023
Dagskrá inniheldur m.a. :
- Andlitsmálning
- Hjaltested borgarar
- Víkings varningur á staðnum
- Baddi tekur lagið
Svo förum við öll saman í skrúðgöngu á leikinn! Áfram Víkingur
Miðasala pic.twitter.com/ffj1q5CUvs
„Þetta er bara geggjað tækifæri“
Ljóst er að flestir líta á viðureignina í kvöld sem leik Davíðs gegn Golíat en Nadía lætur engan bilbug á sér finna.
„Við ætlum að vera duglegar og reyna að halda í boltann, beita sterkum og góðum skyndisóknum, en bara spila okkar bolta og breyta ekki of miklu fyrir þennan leik. Halda okkar striki og því sem við höfum verið að gera vel í sumar,“ segir Nadía og það er enginn saddur í Víkinni þrátt fyrir velgengnina hingað til í sumar:
„Alls, alls ekki. Maður er aldrei saddur. Þetta er bara geggjað tækifæri og við ætlum að gera allt til að vinna þennan leik. Það er algjörlega planið.
Það er alltaf spenna í kringum þetta. Þetta er auðvitað alveg geggjað og Víkingur er búinn að tjalda öllu til, svo þetta er geggjuð vika sem við fáum að upplifa. En við erum samt ekki að breyta miklu. Æfum vel og gerum eins og fyrir flesta leiki í sumar.
Þetta eru geggjaðir stuðningsmenn sem Víkingar eiga og ég ætla rétt að vona að allir mæti líka til að styrkja okkur eins og strákana. Það var geggjað í Krikanum og líka góður stuðningur á móti Selfossi, og stuðningurinn hefur verið fínn í allt sumar. Ég vona því að allir mæti og styðji okkur,“ segir Nadía.
Leikur Breiðabliks og Víkings hefst klukkan 19 á Laugardalsvelli í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.