Margt hefur verið rætt og ritað um skipti Kane til þýsku meistaranna sem gengu í gegn í gær. Eftir tólf titlalaus ár hjá Tottenham vonast hann til að fá sínar fyrstu gullmedalíurnar á ferlinum hjá þýska stórveldinu sem hefur haft áskrift að meistaratitlinum þarlendis síðustu ár.
Aðeins degi eftir skiptin fékk Kane tækifæri til þess í dag er Bayern og Leipzig kepptu um þýska ofurbikarinn á Allianz Arena, heimavelli Bayern.

Það voru hins vegar aðeins þrjár mínútur liðnar af leiknum þegar Spánverjinn Dani Olmo kom Leipzig í forystu. Hann tvöfaldaði þá forystu undir lok fyrri hálfleiks þegar hann lék meistaralega á tvo varnarmenn Bayern áður en hann klobbaði Sven Ulreich í marki Bayern.
Thomas Tuchel gerði þrefalda breytingu í hálfleik og Bæjarar fengu þónokkur færi til að minnka muninn í síðari hálfleiknum. Þeim gekk bölvanlega fyrir framan markið og refsaðist fyrir þegar Olmo fullkomnaði þrennu sína af vítapunktinum um hálfleikinn miðjan.
Kane var þá nýkominn inn af bekknum en á tæpum hálftíma á vellinum tókst honum ekki að setja mark sitt á leikinn.
Leipzig vann 3-0 og fagnar ofurbikarnum í fyrsta sinn í sögu félagsins. Þá bindur sigurinn jafnframt enda á þriggja ára sigurhrinu Bæjara í keppninni.