Stofnunin segir að allir beri ábyrgð á því að tilkynna um hvers kyns kynferðislegt áreiti og ofbeldi í kjölfar þess að Hermoso fullyrti að kossinn hafi ekki átt sér stað með hennar samþykki. Rubiales heldur þó öðru fram.
Rubiales hefur mátt sæta mikilli gagnrýni eftir hegðun sína í kjölfar sigurs Spánverja á HM kvenna í knattspyrnu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en hann hefur neitað að segja af sér. Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur þó sett hann í 90 daga bann frá afskiptum af knattspyrnu.
„Konur í íþróttum þurfa enn að þola kynferðislega áreitni og ofbeldi. Við berum öll þá ábyrgð að tilkynna slík tilfelli,“ sagði Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna á X, sem áður hét Twitter.
„Við styðjum við bakið á Jenni Hermoso og öllum þeim sem vinna að því að enda áreitni og kynjamisrétti í íþróttum. Látum þetta verða vendipunkt.“