Veiðimenn og veiðiréttareigendur hafa verið beðnir um að vera vakandi yfir hugsanlegum strokulöxum og Hafrannsóknarstofnun birti í dag leiðbeiningar til þess að bera megi kennsl á þá. Tíu dagar eru síðan tvö göt fundust á kví hjá Arctic Sefarm í Patreksfirði.
Nokkrir þeirra fundust í Ósá í Patreksfirði nokkrum dögum síðar en samkvæmt Matvælastofnun gætu um 3.400 laxar hafa sloppið. Málið er til rannsóknar hjá stofnuninni.
„Við höfum fengið núna átta staðfest tilvik af norðvesturhorninu þar sem fiskarnir bera augljós merki um að vera eldislaxar,“ segir Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, í samtali við fréttastofu.
Um sé að ræða fimm ár í Húnavatnssýslu, tvær í Breiðafirði og eina á Vestfjörðum. „Svo geri ég náttúrulega ráð fyrir því að í litlu ánum á Vestfjörðum sé eldislax að ganga af krafti.“
Gunnar segir að lengi hafi verið varað við því að þetta geti gerst. „Áhyggjurnar eru fyrst og fremst af erfðablöndun. Það sem gerist er að eldislaxinn gengur upp árnar og tekur þátt í hrigningunni með villta laxinum.“
Þetta geti ekki verið viðvarandi í langan tíma án þess að erfðablöndun eigi sér stað. Slíkt dragi verulega úr hæfni villta laxins. „Það er í rauninni það sem við höfum áhyggjur af.“
Er skaðinn skeður núna?
„Þetta er náttúrulega mjög alvarleg staða og þessi skaði er vissulega skeður. En villti stofninn þolir kannski smávægilegan ágang í smá tíma en svona viðvarandi ágang, hann þolir það ekki.“