Þetta eru niðurstöður vísindamanna við University of Edinburgh og Zhejiang University School of Medicine í Hangzhou í Kína. Rannsóknin tók til gagna frá 204 ríkjum en fjölgunin var einna mest í Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Vestur-Evrópu.
Niðurstöðurnar styðja við eldri rannsóknir en yfirlit yfir krabbameinsskrár 44 ríkja árið 2022 leiddi í ljós að fjórtán tegundir af krabbameinum væru að greinast oftar en áður meðal yngra fólks. Aðstandendur þeirrar rannsóknar sögðu aukninguna ekki skýrast af auknum skimunum eða rannsóknum.
Það væri líklegra að um væri að ræða blöndu af áhættuþáttum, þekktum og óþekktum.
Áhættuþættir krabbameins eru margir, til að mynda reykingar, áfengisneysla, hreyfingarleysi, offita, mengun og óhollt matarræði. Rannsakendurnir í Skotlandi og Kína segja erfðir eflaust eiga þátt að máli en benda einnig á að tóbak og áfengi og mikil neysla rauðs kjöts og salts séu helstu áhættuþættirnir hjá ungu fólki.
Hreyfingarleysi, ofþyngd og hár blóðsykur eigi svo einnig þátt að máli.
Þess ber að geta að þrátt fyrir þessa miklu fjölgun krabbameinsgreininga meðal yngra fólks er krabbamein hjá 50 ára og yngri enn óalgengt. Níu af hverjum tíu krabbameinum greinast hjá þeim sem eru eldri en 50 ára.