Gestir pallborðsins verða Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata.
Þing verður sett 12. september, á þriðjudaginn í næstu viku, og stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana eru á dagskrá á miðvikudagskvöld.
Margir munu fylgjast spenntir með því hvað Katrín Jakobsdóttir hefur að segja en það mátti lesa það úr ályktunum flokksráðsfunda Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins að gjá er að myndast milli stjórnarflokkanna í ýmsum málaflokkum.
Frumvarp um framtíðarbann við hvalveiðum verður lagt fram á komandi þingi og þá eru fyrirsjáanleg átök um ýmis mál, svo sem útlendingamálin og orku- og auðlindamál.
Klofnar Sjálfstæðisflokkurinn vegna bókunar 35? Springur ríkisstjórnin vegna hvalveiða? Er umræða um aðild að Evrópusambandinu tímaskekkja? Hvað ætlar þingið að gera til að koma til móts við almenning í landinu vegna verðbólgunnar?
Við freistum þess að svara þessum og fleiri spurningum í Pallborðinu á Vísi klukkan 15.