Leikmennirnir eru af mörgum taldir tveir bestu knattspyrnumenn allra tíma og kepptust við hvorn annan um markamet og titla svo árum skipti. En nú segir Ronaldo tímabært að leggja ríginn til hliðar og bera virðingu fyrir afrekum hvors annars.
„Rígurinn er horfinn, hann var skemmtilegur og aðdáendurnir nutu þess. Við deildum sviðinu í 15 ár og urðum á endanum, kannski ekki vinir, en förunautar og við berum virðingu hvor fyrir öðrum“ sagði Ronaldo þegar hann var spurður hvort að hatur hafi drifið þá áfram á vegferð sinni. „Þeir sem elska Cristiano Ronaldo þurfa ekki að hata Lionel Messi" bætti portúgalinn við.
Ronaldo er markahæsti leikmaður í sögu Real Madrid með 451 mark í 438 leikjum. Á 9 árum sínum hjá félaginu vann hann 16 titla, þar af 4 meistaradeildartitla. Lionel Messi er markahæsti leikmaður í sögu erkifjenda þeirra í Barcelona með 674 mörk í 781 leik.
Leikmennirnir hafa nú báðir yfirgefið stærstu svið knattspyrnunnar, Ronaldo spilar með Al-Nassr í Sádí Arabíu og Lionel Messi gekk nýverið í raðir Inter Miami frá PSG. Leikmennirnir hafa mæst 36 sinnum áður, síðast í janúar þegar vináttuleikur PSG og Riyadh XI fór fram. Það gæti orðið þeirra síðasti leikur saman á vellinum.
Ronaldo er í landsliðshópi Portúgal sem mætir Slóvakíu og Lúxemborg á dögunum. Portúgalska liðið situr í efsta sæti J riðils í undankeppni EM, Ísland er í því fimmta.