Zito Luvumbo tók forystuna fyrir heimamenn í Cagliari með góðu marki eftir stoðsendingu þvert yfir völlinn frá Nahitan Nández á hinum kantinum.
Cagliari situr í neðsta sæti ítölsku deildarinnar með aðeins 2 stig eftir sex leiki og höfðu fyrir þennan leik aðeins skorað eitt mark, það var því góð ástæða til að fagna þegar Luvumbo setti boltann í netið.
En fagnaðarlætin urðu skammlíf, Noah Okafor jafnaði leikinn fyrir gestina frá Mílanó á 40. mínútu og rétt fyrir hálfleiksflautið kom Tomori þeim yfir með marki sem kom upp úr hornspyrnu.
Það voru svo fyrrum Chelsea samherjarnir Christian Pulisic og Loftus-Cheek sem tengdu saman í þriðja markinu og tryggðu sigurinn fyrir gestina. Pulisic fékk boltann úti á væng, fann Loftus-Chekk í plássi inni á miðsvæðinu, hann tekur eina snertingu og þrumar boltanum svo niður í vinstra markhornið.
AC Milan kemst með þessum sigri upp í 2. sæti deildarinnar og jafna tímabundið nágranna sína í Inter að stigum. En Inter leikur við Sassuolo síðar í kvöld og getur haldið sigurgöngu sinni áfram.
Liðin frá Mílanó eru bæði með fullt hús stiga fyrir utan tap AC gegn Inter í nágrannaslagnum um daginn.