Eto'o, sem er forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins, er grunaður um að hafa átt þátt í að hagræða úrslitum í B-deildinni í Kamerún.
Í upptöku sem hefur verið gerð opinber heyrðist Eto'o tala við forseta Victoria United, Valentine Nkwain, þar sem hann lofaði því að koma liðinu upp í efstu deild með því að hagræða úrslitum leikja.
„Það eru hlutir sem við getum gert en þú verður að fara mjög varlega,“ á Eto'o að hafa sagt við Nkwain.
„Ekki hafa áhyggjur, við færum ykkur þrjú stig og setjum dómarann í bann. Liðið verður að fara upp um deild. Það er markmiðið. Þetta er okkar samband. Victoria United kemst upp í efstu deild.“
Victoria United komst upp um deild. Þrátt fyrir það hafna Eto'o og Nkwain því að brögð hafi verið í tafli.
Kamerúnska lögreglan er með málið til rannsóknar. Auk þess rannsakar hún frekari ásakanir um spillingu í forsetatíð Eto's hjá kamerúnska knattspyrnusambandinu. Hann var kosinn forseti þess í desember 2021.