Neitaði að segja til nafns
Vasaþjófurinn sálugi hefur allt frá dauða sínum verið þekktur undir viðurnefninu „Stoneman Willie“, en ekkert hefur verið vitað um nafn hans þar til í gær þegar hann var lagður til hinstu hvílu í kirkjugarðinum í Reading í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.
Stoneman Willie var handtekinn haustið 1895 fyrir vasaþjófnað. Hann var drykkfelldur og heimilislaus og neitaði að segja til nafns þegar hann var handtekinn. Hann lést í fangelsinu af nýrnabilun þann 19. nóvember þetta sama ár.
Smurður og gerður að múmíu
Útfararstjóri bæjarins var að þróa nýja aðferð við varðveislu líka sem fundin hafði verið upp í bandaríska borgarastríðinu og hann fékk að gera tilraun á líkinu þar sem enginn gerði tilkall til þess. Hann smurði líkið með efnablöndu sem innihélt formalín, blásýru og arsenik og í ferlinu breyttist Willie hreinlega í grjótharða múmíu.
Hefur verið sýningargripur í 128 ár
Hann hefur síðan verið til sýnis á útfararstofunni, þar sem hann hvílir í kistu, uppáklæddur í jakkaföt og með rauðan borða yfir brjóstinu. Hann er ennþá með hár og tennur, en húð hans er orðin eins og hert leður, ekki ósvipuð líkum sem fundist hafa í mýrlendi eftir mörg þúsund ára legu þar.
Eftir margra ára rannsóknir á uppruna Willie tókst útfararstofunni loks að komast að nafni mannsins sem var af írskum uppruna. Um helgina er haldið upp á 275 ára afmæli bæjarins og við það tækifæri, í gær, var Stoneman Willie ekið með viðhöfn um götur bæjarins og upp í kirkjugarð þar sem hann var lagður til hinstu hvílu og á legsteininn var ritað nafnið sem hann bar í lifanda lífi; James Murphy.