Þór Þorlákshöfn vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu gegn Stjörnunni í Garðabænum. Leikurinn var í járnum alveg þangað til um miðjan fjórða leikhluta þar sem Þórsarar voru skrefi á undan og unnu að lokum fjögurra stiga sigur 80-84.
Leikurinn fór ekki af stað með neinni flugeldasýningu heldur hikstuðu bæði lið í upphafi. Jafnræði var þó með liðunum. Tómas Valur Þrastarson var eini leikmaður Þórs Þorlákshafnar sem gat komið boltanum ofan í en hann gerði fyrstu sjö stig gestanna.
Tómas Valur var það heitur að brunabjallan fór af stað í Umhyggjuhöllinni en þó aðeins um stutta stund. Eftir tæplega sex mínútur komst næsti maður hjá Þór á blað en Jordan Semple setti niður sniðskot. Darwin Davis endaði fyrsta leikhluta á að setja flautuþrist yfir Ægi og gestirnir voru fimm stigum yfir eftir fyrsta fjórðung 17-22.
Í öðrum leikhluta kom tilþrif leiksins. Fjármálastjóri Stjörnunnar, Pálmi Geir Jónsson, kom inn á og setti niður ótrúlega þriggja stiga körfu spjaldið ofan í. Þetta kom það mikið á óvart að stúkan skellti upp.
Í stöðunni 31-32 setti Nigel Pruitt niður þriggja stiga körfu og þá tók Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé. Eftir leikhlé Arnars fóru heimamenn á flug og gerðu átta stig í röð sem varð til þess að Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, tók leikhlé.
Gestirnir enduðu fyrri hálfleik á að gera síðustu sex stigin og voru tveimur stigum yfir í hálfleik 39-41.
Darwin Davis byrjaði síðari hálfleik á að setja niður þrist og gestirnir höfðu þá gert níu stig í röð. Hlynur Bæringsson stöðvaði síðan áhlaup Þórs og setti boltann ofan í eftir stoðsendingu frá Ægi. Þetta var tíunda stoðsending Ægis í leiknum á þeim nítján mínútum sem hann hafði spilað.
Þriðji leikhluti einkenndist af stuttum áhlaupum beggja liða. Það var allt í járnum fyrir síðasta fjórðung þar sem gestirnir voru einu stigi yfir 59-60.
Þórsarar tóku frumkvæðið í fjórða leikhluta. Gestirnir settu niður tvo þrista í röð og þá var Arnari nóg boðið og tók leikhlé í stöðunni 62-68.
Stjarnan gerði vel í að koma til baka og lokamínútan var nokkuð spennandi en Þór vann að lokum fjögurra stiga sigur 80-84.
Af hverju vann Þór Þorlákshöfn?
Það var ekki mikill munur á liðunum og sigurinn hefði getað dottið hvoru megin. Gestirnir komust níu stigum yfir þegar að tvær mínútur voru eftir sem á endanum var of mikið fyrir Stjörnuna.
Hverjir stóðu upp úr?
Tómas Valur Þrastarson setti tóninn strax í upphafi með því að gera fyrstu sjö stig Þórs. Tómas var stigahæstur með 22 stig en hann tók einnig 9 fráköst.
Ásmundur Múli Ármannsson átti frábæra innkomu af bekknum hjá Stjörnunni. Ásmundur Múli gerði 11 stig á þeim 17 mínútum sem hann spilaði.
Hvað gekk illa?
Stjarnan endaði fyrri hálfleik afar illa þar sem Þór gerði síðustu sex stigin og augnablikið var með gestunum í hálfleik. Darwin Davis byrjaði síðan þriðja leikhluta á að setja niður þrist.
Það var ansi mikið á herðum Ægis Steinarssonar sem spilaði 35 mínútur í leiknum. Ægir var með 17 prósent skotnýtingu. Ægir var samt nálægt þrefaldri tvennu þar sem hann gerði 8 stig, tók 8 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
Hvað gerist næst?
Næsta fimmtudag mætast Hamar og Stjarnan klukkan 19:15. Á sama tíma eigast við Þór Þorlákshöfn og Haukar.
Arnar: Enduðum fyrri hálfleik illa

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir tap gegn Þór Þorlákshöfn.
„Það hjálpaði ekki að missa Júlíus Orra út af. Síðan fannst mér lokin á öðrum leikhluta ekki góð,“ sagði Arnar Guðjónsson og hélt áfram.
„Við náðum bara ekki að grípa boltann og létum verja frá okkur sem endaði með hraðaupphlaupum í hina áttina. Þetta fór samt ekki þarna þar sem við komust yfir í seinni hálfleik.“
Þrátt fyrir tap var Arnar ekkert ósáttur með frammistöðu liðsins.
„Heillt yfir var frammistaðan góð. Við vorum ekki að spila á mörgum mönnum. Ásmundur Múli steig upp í kvöld sem var mjög skemmtilegt að sjá,“ sagði Arnar Guðjónsson að lokum.