Þetta er fullyrt í belgíska miðlinum HLN sem segir að lögregla hafi farið í aðgerð á kaffihúsi í Schaerbeek hverfinu í Brussel í morgun eftir að hafa fengið ábendingu um að maðurinn væri þar. Skotbardagi braust út í kjölfarið og var maðurinn felldur á staðnum. Riffillinn sem hann notaði í voðaverkinu í gær fannst hjá honum segir blaðið einnig.
Að neðan má sjá svipmyndir frá Brussel í morgunsárið.
Gríðarleg leit var gerð að morðingjanum í gærkvöldi og í nótt sem um fimmþúsund lögreglumenn tóku þátt í. Hættustig í Brussel er nú á efsta stigi eftir árásina og á næst-efsta stigi í restinni af Belgíu.
Maðurinn er sagður hafa heitið Abdeslam Lassoued, 45 ára gamall Túnisbúi, sem hafi verið ólöglega í Belgíu. Hann mun hafa verið þekktur hjá lögreglu grunaður um ýmsa glæpi og mansal.
Uppfært 7:44: Innanríkisráðherra Belgíu hefur staðfest að árásarmaðurinn hafi verið skotinn til bana í aðgerðum lögreglu.