Pútín fór til Kirgistan fyrr í þessum mánuði.
Forsetarnir hittust síðast í Moskvu í mars en þá bauð Xi Pútín til Kína á ráðstefnu um Belti og braut, innviðaverkefni Kína sem er ætlað að tengja Kína við Evrópu, Asíu og Afríku á landi og á sjó. Þá ráðstefnu er Pútín að sækja en tíu ár eru liðin síðan Xi hóf verkefnið.
Ráðstefnuna sækja einnig leiðtogar Víetnam, Taílands, Mongólíu og Laos.
Sjá einnig: Funduðu í fjóra og hálfan tíma
Við komuna í Peking í morgun tók Wang Wentao, viðskiptamálaráðherra, móti forsetanum. Í viðtali við kínverska ríkismiðilinn CCTV hrósaði Pútín Belti og braut í hástert.
„Já, við sjáum einhverja halda því fram að þetta sé tilraun Kína til að senda einhvern undir ok, en við sjáum það öðruvísi,“ sagði Pútín samkvæmt AP fréttaveitunni. „Við sjáum til raun til samvinnu.“
Pútín sagði einnig að hann og Xi myndu ræða vaxandi viðskiptasamband ríkjanna tveggja, tækniþróun og fjármálageira ríkjanna.
Frá því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu hefur kínverskur markaður orðið þeim mikilvægari. Í frétt Reuters segir til að mynda að meira en þriðjungur af olíusölu Rússa fari til Kína.