Ísraelsmenn beina því nú til Palestínumanna á norðurhluta Gasa að flýja suður, þar sem meiri kraftur verði settur í loftárásir á svæðinu. Suðurhluti Gasa hefur þó alls ekki farið varhluta af sprengjuárásum Ísraelsmanna; hundruð hafa fallið þar í árásum síðustu daga, þó að svæðið eigi að heita öruggara.
Ísraelsmenn sögðu í gær að „næsti fasi stríðsins“ við Hamas væri að hefjast. Hann felist í tíðari loftárásum í norðri, til að skapa sem „bestar aðstæður“ fyrir ísraelska hermenn áður en hersveitir verða sendar landleiðina yfir landamærin. Eiginleg innrás Ísraelsmanna inn á Gasa virðist því handan við hornið.
Þá greindi talsmaður hersins frá því í morgun að Ísraelsher hefði grandað „tifandi tímapsrengju“ í loftárás á Vesturbakkanum; miðstöð hryðjuverkamanna sem starfrækt hefði verið undir mosku í Jenin-flóttamannabúðunum. Hópurinn bæri ábyrgð á fjölmörgum árásum í Ísrael og hefði verið að skipuleggja fleiri þegar hann var þurrkaður út.
Félagið Ísland-Palestína hefur boðað til samstöðugöngu í dag til stuðnings Palstínu. Gangan hefst við Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg klukkan 14:20 og gengið verður niður Laugaveg að Austurvelli. Klukkan 15:15 hefst svo samstöðufundur þar. Þar munu Drífa Snædal, talskona Stígamóta, og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, flytja ræður.