Skoðun

Sýnum sam­stöðu

Logi Einarsson skrifar

Á morgun er heilsdags kvennaverkfall á Íslandi og þá eru komin 48 ár síðan konur lögðu niður störf og mótmæltu um allt land með mjög eftirminnilegum hætti. Það er auðvitað sorgleg staðreynd að öllum þessum árum síðar séu konur enn í þeim sporum að þurfa að leggja niður störf og mótmæla en það er því miður veruleikinn.

Í dag hafa konur 21% lægri atvinnutekjur en karlar. 40% kvenna verða fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni og samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups um verkaskiptingu á heimili sinna konur í mun meira mæli heimilisstörfum en karlkyns makar þeirra.

Þegar konur í gagnkynhneigðum samböndum voru spurðar um hvernig heimilisverkin skiptust á milli þeirra og maka sögðust 67% sinna þeim meira. Á sama tíma sögðust 12% karla sinna heimilisstörfum í meira mæli. Þegar kemur að umönnun barna sögðust 59% kvenna sinna þeim meira en karlkyns maki. 31% karla telja kvenkyns maka sinn sinna börnum sínum meira en einungis 2% kvenna telja karlkyns maka sinna börnum meira en þær.

Um leið og ég hvet konur til að taka þátt næsta þriðjudag þurfum við karlar líka að taka þessa stöðu alvarlega. Við þurfum ekki síður að leggjast á árar til að breyta þessari ólíðandi stöðu. Við skulum sýna samstöðu með kröfum kvenna á þriðjudaginn og raunar alla daga. Óhjákvæmilega verða margir skólar og leikskólar óstarfhæfir og þess vegna vil ég hvetja feður, afa, bræður, til að gera ráðstafanir á morgun og tryggja þátttöku kvenna í verkfallinu.

Látum konur ekki einar standa í baráttunni fyrir jafnrétti.

Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×