Sunna Björk á að baki sér viðburðaríkan feril sem er þó rétt að byrja. Hún hefur gjarnan verið að farða íslensku stórstjörnuna Björk Guðmundsdóttur, hefur ferðast víða fyrir fjölbreytt verkefni og unnið fyrir stór tískutímarit á borð við breska og pólska Vogue svo eitthvað sé nefnt. Sunna Björk er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst.
Hér má sjá viðtalið við Sunnu í heild sinni:
Sunna Björk stundaði nám við Listfræði í Háskóla Íslands sem hún segir hafa verið mjög skemmtilegt og fræðandi. Ásamt því hafi námið dýpkað listræna sýn hennar á förðuninni. Hún hafi þó alltaf fundið ákveðið öryggi í því að vera í skóla en hún man eftir augnablikinu þar sem hún ákvað að hætta.
„Tækifærin voru allt í einu orðin svo mörg að ég þurfti að velja. Ég gat ekki lengur verið með annan fótinn út og ég varð svolítið að treysta því að það sem ég elskaði að gera væri bara nóg.
Ég þyrfti kannski ekkert að leitast eftir akademískri gráðu til að fá einhverja viðurkenningu eða staðfestingu á mér.“

Í kjölfarið fóru hin ýmsu verkefni að koma til Sunnu.
„Þetta gerðist frekar náttúrulega allt, snjóboltinn var farinn að rúlla og tækifærin urðu fleiri. Ég hef ekki litið til baka í eina sekúndu. Ég trúi því varla að þetta sé það sem ég fæ að gera alla daga.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.