Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu. Þar segir að útsendarar Blanka hafi í gærkvöldi varpað merki félagsins á höfuðstöðvar bankanna í þeim tilgangi að breiða út boðskap Blanka um alla borg og land allt.
„Þessi gjörningur stafar reyndar ekki af samkeppni Blanka við banka hér á landi. Blanki er nefnilega ekki raunverulegur heldur herferð á vegum ÖBÍ réttindasamtaka til að vekja athygli almennings og stjórnvalda á vondum kjörum fatlaðs fólks, skorti á húsnæðisöryggi og skertu aðgengi þess að heilbrigðisþjónustu.“
Segir ÖBÍ að það sé staðreynd að örorkulífeyrir á Íslandi sé of lágur. Staðreynd sé að stór hópur öryrkja neyðist til að borga 51 til 75 prósent útborgaðra tekna í húsnæðikostnað og að nærri helmingur þeirra þurfi að neita sér um læknisþjónustu af fjárhagsástæðum.
ÖBÍ fékk meðal annars Tik-Tok stjörnur til liðs við sig.
Tekjuvandi fatlaðs fólks fari vaxandi
Þá segir ÖBÍ að tekjuvandi fatlaðs fólks sé mikill og fari vaxandi. Undanfarnar lífeyrishækkanir haldi ekki í við verðbólgu og matarkarfan hafi hækkað um meira en 12 prósent síðasta árið.
„Félagar í aðildarfélögum ÖBÍ eru um 40.200 talsins og sennilega eiga landsmenn allir einhvern að sem tilheyrir þessum hópi. Fatlað fólk er alls konar og á í viðskiptum við alls konar banka. Hvar annars staðar er betra að benda á hve margir eiga lítið en þar sem almenningur geymir það (litla) sem hann á, í bönkunum?“ spyr ÖBÍ í tilkynningunni.
„Við vonum að samfélagið allt geti tekið undir þennan málstað, að stjórnvöld bregðist við af krafti og við eigum von á að bankarnir taki þessari litlu ljósasýningu vel og styðji málstaðinn ÖBÍ réttindasamtök krefjast þess að stjórnvöld hækki örorkulífeyri um 12,4 prósent án tafar.“