Skoðun

Upp­bygging um alla borg

Pawel Bartoszek skrifar

Þessa stundina eru 2853 íbúðir í byggingu í Reykjavík. Uppbyggingin á sér stað um alla borg en stærstu stöku reitirnir eru Heklureitur, Orkureitur og Grensásvegur 1. Þá er byrjað að byggja í Ártúnshöfða, í hverfi þar sem nokkur þúsund íbúðir mun rísa á næstu árum, og nýframkvæmdir eru enn í fullum gangi í Vogabyggð og í Úlfarsárdal.

Yfir 5.000 íbúðir skipulagðar

Þetta eru bara þeir staðir þar sem hamarshögg heyrist. Hægt er að hefja byggingu á 2.708 íbúðum sem eru á byggingarhæfum lóðum. Þetta eru til dæmis lóðir fyrir 450 íbúðir Hlíðarenda, 300 íbúðir í Gufunesi og 200 á Kirkjusandi, svo eitthvað sé nefnt.

Í samþykktu skipulagi (þar sem verið er að gera lóðirnar klárar) eru síðan 2.705 íbúðir. Stærstu svæðin þar eru Skerjafjörður og Ártúnshöfði. Lengra inn í framtíðina eru svæði þar sem verið er að vinna að skipulagi, stærst þeirra er Keldnalandið með yfir 3.500 íbúðir en einnig er vert að nefna Kringlusvæðið og Veðurstofuhæð.

Eggjunum dreift

Punkturinn með allri þessari upptalningu er þessi. Reykjavík hefur ekki sett öll eggin í sömu körfuna. Eggjunum hefur verið dreift um alla borg. Fyrir vikið hefur uppbyggingin í borginni verið stöðug og útlit er fyrir að yfir 1.000 íbúðir verði teknar í notkun í borginni í ár, fimmta árið í röð. Við í Viðreisn erum stolt af okkar hlutdeild og okkar árangri í þessum málaflokki.

Á framboðshliðinni eru engar töfralausnir aðrar en þær að tryggja að þessi skynsamlega og stöðuga uppbygging haldi áfram. Viðreisn mun halda áfram að vinna því að nóg sé skipulagt af nýjum lóðum víðsvegar um borgina, að nóg sé byggt og að nóg komi inn á hinn almenna markað til að nýir kaupendur hafi úr nógu að velja. Þannig tryggjum við stöðuleikann í framboðinu.

Viðbót að lokum:

Til að tryggja stöðugleika í eftirspurninni þurfum við síðan “bara” að taka upp nýjan gjaldmiðil og komast í stöðugra vaxtaumhverfi til að reglulegar gengissveiflur og verðbólguskot éti ekki upp kaupmáttinn okkar á nokkurra ára fresti. En það er efni í aðra grein.

Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×