Fjárhagsáætlun í tenglsum við leiguna á hitapylsunni hljómar upp á 40 til 45 milljónir króna en nú þegar hefur hún verið notuð til þess að gera Laugardalsvöll leikfæran fyrir leiki Breiðabliks í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu sem og kvennalandsleik sem fór fram á vellinum þann 31. október síðastliðinn.
Leikur Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv í Sambandsdeild Evrópu í dag átti að fara fram á vellinum en var á síðustu stundu færður yfir á Kópavogsvöll. Ekki eru fleiri leikir á dagskrá Laugardalsvallar á næstunni og því hlutverki hitapylsunnar hér á landi lokið.
Í umsókn sem KSÍ sendir inn til Fjárlaganefndar Alþingis skrifar Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður sambandsins:
„Við búum við nýjan veruleika í knattspyrnunni í Evrópu, þar á meðal hér á landi. UEFA (Knattspyrnusamband Evrópu) hefur lengt mótin og nú er svo komið að reikna þarf með að hægt sé að leika knattspyrnu allt árið um kring.
Á þetta við um A landslið og félagslið, karla og kvenna. Auðvitað viljum við fara í framkvæmdir og nota fjármuni í það, frekar en leigu en það náðist ekki í haust og því var hitapylsan það eina sem hægt var að gera.“
Ekki sé vitað um neitt annað land í Evrópu sem sé í þeirri stöðu sem Ísland finnur sig í núna er varðar aðbúnað þjóðarleikvangs.
„Við erum þess einnig fullviss að ekkert sérsamband hér á landi hafi þurft að greiða tugi milljóna til þess að gera Þjóðarhöll/Þjóðarleikvang leikfæran. Það er ekki réttlátt að KSÍ þurfi að gera það, eitt sérsambanda.“