Liðin fjögur í riðli Íslands eru öll á sama hótelinu í norska bænum sem myndar nokkuð skemmtilega stemningu. Leikmenn Slóveníu, sem vann Ísland í gær, spiluðu borðspil við hliðina á íslensku leikmönnunum og þær frönsku fóru hver af annarri á svalir við hlið samkomusalsins til að reykja.
Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona Íslands, kippti sér lítið upp við athæfi þeirra frönsku.
„Það er ekkert skrýtið, þannig. Kannski er það bara vegna þess að maður er orðinn vanur því úti í Þýskalandi. Þar var ég með leikmönnum sem gera slíkt hið sama,“ segir Díana
„Þetta truflar mig ekki neitt, en auðvitað er þetta furðulegt og allt annað en maður þekkir á Íslandi. Evrópa hefur kannski lítið breyst þegar kemur að þessum hlutum,“
Þrátt fyrir reykingarnar er franska liðið eitt það besta í heimi og eru ríkjandi Ólympíumeistarar. Stelpurnar okkar eiga því ærið verkefni fyrir höndum er þær mæta Frökkum klukkan 17:00 á morgun.
Vísir fylgir stelpunum okkar vel eftir fram að leik og færir allar helstu fregnir frá Stafangri.